Wednesday, December 19, 2007

Rhino

Í nýafstöðnu enskuprófi áttu nemendur til dæmis að þýða orðið "rhino".

Flestir sögðu: "Nashyrningur"

Tveir teiknuðu mynd af nashyrningi, mundu ekki íslenska heitið.

Tveir sögðu: "Einhyrningur".

Og einn sagði: "Þríhyrningur."

Friday, December 14, 2007

Síðasti Sopranos-þátturinn...

...er búinn.

Fínn endir.

Skil samt alveg fjaðrafokið sem varð eftir sýningu hans í Bandaríkjunum.

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar þættinum lauk var: "Djö..."

En svo hugsaði ég bara: "Þetta var nú bara nokkuð mikil snilld."

Allavega: "Bless Tony! Takk fyrir skemmtunina!"

Thursday, December 13, 2007

Ég er með hnút í maganum.

Í kvöld er síðasti Sopranos-þátturinn. 

Gúlp. 

Tuesday, December 11, 2007

Takk fyrir mig, Júlía og co!

Stuttverkið "Á í messunni" eftir mig í leikstjórn Júlíu Hannam, var frumsýnt í Þjóðleikhúskjallaranum á sunnudagskvöldið og vá hvað mér fannst það skemmtilegt! Baldur Ragnarsson og Árni Hjartarson fóru hreinlega á kostum og ekki voru útvarpsraddirnar síðri, með Hjörvar Pétursson í fararbroddi. Seinni sýningin verður svo í kvöld og þá ætla ég að reyna að taka kameruna með, ef ég kemst. 

Svo ætlar Liverpool að komast í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar í kvöld.

Já já, það er nú bara formsatriði.

Sunday, December 2, 2007

Í gærkveldi skrapp ég á Þingvelli til að gubba...

...það er eitthvað að klósettinu okkar, niðursturtið virkar ekki nógu vel. En það virkar mikið betur í Valhöll.

Friday, November 30, 2007

Hátíðarlituð tónleikaröð

Það er aldeilis búið að vera mikið að gera hjá mér síðan síðast. Síðustu vikuna er ég búinn að fara á þrjá tónleika, tvö bekkjarkvöld, eitt bíó og svo er ég náttúrulega búinn að vera vinna eins og þræll. Og svo er konan mín bara ólétt heima og Gyða litla gubbandi.

Já, fyrir viku fór ég að sjá Jón Þorsteinsson og Hörð Áskelsson í Neskirkju. Það voru gullfallegir tónleikar, svo manni vöknaði um augu. Jón söng upp sálma af nýjum diski og nokkur verk eftir Bach. Ríkharður Örn mætti á sömu tónleika og ég og fór út í fýlu sýnist mér á dómnum hans í Mogganum. Allt vegna þess að ekki var ritað tónleikaprógramm. Og hvað? Átti það að hjálpa honum að vita númer hvað sálmurinn er í sálmabókinni?

Á laugardagskvöldið fór ég svo að sjá Beowolf með Róberti. VÁÁ! Þvílík upplifun! 3D snilld! Drífa sig að sjá hana í bíó. Það er örugglega ekkert varið í hana annars staðar. Þetta er sko alvöru ævintýri.

Á þriðjudagskvöldið var svo bekkjarkvöld hjá bekknum mínum í Hagaskóla. Tókst súpervel! Ég var mjög stoltur af "börnunum" mínum.

Svo fór ég á bekkjarkvöld hjá Róberti á fimmtudagskvöldið og þaðan fórum við Róbert að sjá aðventutónleika Kvennakórs Reykjavíkur. Amma hans Róberts var náttúrulega best og maður komst bara í ljómandi jólaskap.

Svo fór ég nú í kvöld á jólatónleika Vox Academica og það var nú barasta snilld. Þessi verk voru bara frábær. Gloria eftir Poulenc og jólakantata eftir Honnegger. Sinfóníuhljómsveit og flottur kór, einsöngvarar og lang lang flottasta Heims um ból sem ég hef heyrt, eða mun heyra.

Svo er jólahlaðborð með Hagaskóla á Þingvöllum annað kvöld. Best að fá sér einn bjór til að hita upp.


Thursday, November 22, 2007

Fimmtudagar eru sjónvarpsdagar.

Brothers & Sisters: Nákvæmlega eins og Dallas, en ágætis afþreying. 


House: Sá reyndar bara seinni helminginn og sennilega var þetta versti þátturinn frá byrjun, en Hugh Laurie er magnaður leikari.


The Sopranos: Miklir snilldarþættir. Og greinilega að klárast fyrst það er farið að drepa lykilpersónur. HBO eru algjörir snillingar þegar kemur að vel skrifuðu sjónvarpsefni. Sopranos, Six feet under og Deadwood(já og jafnvel sex and the city). Hvernig er þetta hægt? Six Feet búið, Deadwood búið(á reyndar eftir að sjá slatta), Sopranos næstum búið. Soldið sorglegt.


Yfirleitt horfi ég líka á 07/08, en missti af því núna. Þannig að ekki heimsækja mig á fimmtudagskvöldum :)

Wednesday, November 21, 2007

Þar með er það ákveðið!

Ef ég næ 101 árs aldri ætla ég að sitja fyrir nakinn, fyrir Liverpool.

Liverpool vegna vona ég að ég verði löngu dauður.

Tuesday, November 20, 2007

Bronsið í Hagaskóla!

Hagaskóli var í þriðja sæti Skrekks og má vera stoltur. Enda hæfileikaríkir og djúpt þenkjandi krakkar þarna á ferð. Krakkarnir upphugsuðu þetta atriði alveg á eigin spýtur, án hjálpar fullorðinna og það er með ólíkindum hvað sýningin var vel útfærð og flott. Greinilega vel haldið um taumana. Ég segi bara bravó og húrra fyrir Hagaskóla! Ég er stoltur!

Og nú bíður maður sko aldeilis spenntur eftir Bugsy Malone í leikstjórn Siggu Birnu. Forsmekkurinn segir að það verði magnað.

Monday, November 19, 2007

Weetos - Sykurminnsta súkkulaðimorgunkornið sem völ er á!

Fyrirgefið þetta stutta blogg - ég bara VERÐ að drífa mig út í búð.

Sunday, November 18, 2007

Horft í vestur

Í kvöld horfði ég á aldeilis frábæra mynd, ástralska vestrann "The Proposition". Leikstýrt af 'ég man ekki hverjum' en handritið er eftir Nick Cave. Þessi mynd er falleg/ljót og hæg/spennandi. Hún er full af ofbeldi/á móti ofbeldi. Söguþráðurinn er næstum eins einfaldur og hægt er, en hún nær að vera ljóðræn og innihaldsrík. Og endirinn er ekkert annað en fullkominn. Leikurinn er líka frábær. Ray Winstone sérstaklega. Og Guy Pearce. Hinir ekkert slor. Þetta er mynd sem allir þurfa að sjá, nema yngri en 16 ára, viðkvæmir og ábyggilega flestar konur. Já, vestrinn er greinilega ekki útdauður. Deadwood-þættirnir eru mikil snilld og ég hlakka til að sjá bæði "3:10 to Yuma" og "Jesse James."

Saturday, November 17, 2007

Kominn aftur.

Vonandi til að vera í þetta skiptið. Já, sumarið setti bloggið á hóld og svo byrjaði ég að vinna eðlilega vinnu í haust, eftir margra ára tjill og fyrir vikið hafa hellst yfir mig flensur af ýmsum stærðum og gerðum. Ég er nefnilega nákvæmlega eins og börn sem eru að byrja á leikskóla. Hef verið allt of lengi í sóttkví. Já, nú er ég byrjaður að kenna 8. bekk Hagaskóla, ekki bara ensku, heldur líka sögu, landafræði, lífsleikni og íslensku. Já, þetta er náttlega helvíti töff, en líka bara geðveikt kúl og skemmtilegt. Á degi íslenskrar tungu lék ég minn þátt úr sagnadagskrá Hugleiks fyrir umsjónarnemendur mína, sem síðan hófu að segja draugasögur í framhaldi af því, þannig að það var sko haldið upp á afmæli Jónsa með stæl! Reyndar las ég líka fyrir þau kafla úr "Fáfræðinni" eftir Milan Kundera um flutninginn á beinum Jónasar. Alveg stórkostlegur kafli úr massafínni bók. En ég er ekki eins viss um að nemendur hafi skilið hann eða haft yfirleitt einhverja ánægju af honum.

Jæja, That's it for now.

P.S. Kæru nemendur, ef þið slysist inn á þetta blogg, þá er þetta heimaverkefni handa ykkur. Gjöra svo vel að snara þessum texta yfir á íslensku. :)

Tuesday, July 10, 2007

Síðbúið póstkort

Hæ!

Þá er ég mættur aftur eftir útlönd og Eyjafjörð. Montpellier fannst mér flott. Gamlar, þröngar götur finnast mér einkar sjarmerandi. Það var einstaklega gaman að ráfa þessar götur og finna falleg hús, forvitnilegar búðir og framandi veitingahús. Og hundaskíturinn, sem Siggalára hafði hótað að yrði við hvert fótmál, var fáséður. Það var sumsé skoðað, verslað og borðað. Ekki vissi maður alltaf hvað maður var að panta á veitingahúsum, t.d. ákvað ég að vera grand á því og panta mér nautasteik, en fékk í staðinn hrúgu af hráu nautahakki. Nammi innan gæsalappa. Annars fórum við tvisvar á ströndina (ég er enn að flagna) og einn daginn fórum við til Avignon. Veðrið var oftast stuttbuxna og aldrei rigndi að neinu ráði. Krakkarnir stóðu sig líka með stakri prýði og það var ekkert mál að ferðast með alla fjölskylduna. Næst ætlum við Siggalára samt að fara bara tvö, svo hægt sé að sitja lengur að sumbli og fara í leikhús, óperuhús og þess háttar.

Hlökkum til að sjá ykkur,
Árni og fjölskylda

Thursday, June 7, 2007

Listin að lifa

Fór í Þjóðleikhúsið í kvöld með frægu (og fallegu) konunni minni og sá "athyglisverðustu áhugaleiksýninguna" eða hvað þetta er nú kallað. Skemmti mér rosalega vel, hló og hló og felldi tár í að ég held bara í þriðja sinn í leikhúsi. (Hin skiptin sem ég man eftir eru La Boheme í íslensku óperunni og Í djúpi daganna í Nemendaleikhúsinu). Hví grenjar maður ekki meira í leikhúsi? Ég held að hvað mig varðar þá hafi ég unnið of mikið við leikhús til að lifa mig almennilega inn í verkin. Maður veit að þegar persónurnar fara út af sviðinu og eiga kannski að vera að fremja morð, þá eru þeir sennilega bara að pissa eða reyna við sminkuna.

Allavega, mæli með að fólk drífi sig annað kvöld!

En nú er ég að fara í Bandalagsskólann í Svarfaðardal og síðan til Montpellier á Frakklandi þannig að nú hefst mjög sennilega lengsta blogghléið mitt hingað til.

Gleðilegt Sumar!

Friday, June 1, 2007

Á að útrýma unglingum?

Jæja, eins gott að nota sumarið vel. 15. ágúst fer ég að kenna og verð víst að hætta að leika mér. Ég er að fara að kenna 8. bekk Hagaskóla íslensku, ensku og samfélagsfræði. Hluti af mér er nokkuð stressaður yfir þessu, þar sem ég hef kennt áður og veit að þetta er heilmikið álag og púl. Hinn hlutinn hlakkar bara til. Alltaf gott að breyta til reglulega. Þýðingar eru afskaplega þægileg vinna og krefjast ekki mikils af manni, og það er kannski akkúrat þess vegna sem kominn er tími til að gá hvort ég geti ekki gert unga fólki Íslands meira gagn en setja íslenskan texta við Beavis og Butthead.

Ég er allavega spenntur að kynnast íslenskum unglingum, ég verð að viðurkenna að mér finnst ég ekki þekkja þá vel. "Unglingar" eru gjarnan (oft með hjálp fjölmiðla) settir undir ósanngjarnan hatt. Nú á Róbert ekki langt í að geta kallast unglingur og það eru ekki mörg ár síðan að hann þorði varla út úr húsi vegna þess að hann hafði séð "unglinga" úti. Einhvers staðar fór þetta ágæta orð "unglingar" að hafa neikvæða merkingu. Hversu oft heyrir maður ekki (eða notar jafnvel sjálfur) "Þetta eru nú bara unglingar", "Ætli þetta hafi ekki verið unglingar", "Vertu ekki með þessa unglingastæla!" Ég held að unglingar í dag séu eins og allt annað fólk, þ.e.a.s. eins mismunandi og fólk er margt. Spurning hvort við ættum ekki bara að útrýma "unglingum" úr íslensku máli. Ég er allavega að hugsa um að kenna bara 13 og 14 ára krökkum næsta vetur.

Monday, May 21, 2007

Skjaldarmerkismaðurinn. Nýr og spennandi sjónvarpsþáttur!

Í kvöld sá ég mann stinga krókum í bakið á skjaldarmerkismanninum og hífa skrokkinn á honum upp og láta hann dingla neðan í klettavegg, á meðan skjaldarmerkismaðurinn yfirgaf skrokkinn og sveimaði um lendur sem vonandi fæstir þekkja.

"Heroes" hvað?!

Sunday, May 20, 2007

Simlir og félagar, vinsælir alls staðar

Jæja, nú held ég að sé kominn tími til að rísa úr rekkju. Hef nú eiginlega verið veikur í hálfan mánuð. Söng til dæmis á tónleikum á miðvikudagskvöldið með 38,3 stiga hita. Held þetta sé í fyrsta skipti sem ég syng á tónleikum og hugsa í miðju lagi: "Hvað í fjandanum er ég að gera hérna?" Þetta var svolítið spes, en slapp samt allt fyrir horn.

Á fimmtudagskvöldið fór ég síðan með Shakespeare hópnum mínum í Þjóðleikhúsið/Listahátið og sá gestasýninguna Cymbeline og það var M A G N A Ð. Ég hafði nýlokið við að lesa leikritið og djöfull var þetta gaman og margt sniðugt og allt skemmtilegt og... s. frv.

Svo er margt á dagskránni. Húsfundur á þriðjudagskvöldið, stórleikur á miðvikdagskvöldið og stuttmynd eftir Sverri bróður frumsýnd í Tjarnarbíó á fimmtudagskvöldið, og Brekka, Eyjafjarðarsveit, föstudag til mánudag. Já, nú nenni ég ekki að vera veikur lengur.

Friday, May 11, 2007

Að skríða meira saman

Á morgun ætla ég að halda áfram með viskíið mitt og horfa á Júróvísjón, án Eika frænda. Hann stóð sig nú samt bara vel. Ég er reyndar farinn að hallast að því að konan mín hafi rétt fyrir sér að það sé ekkert Austur Evrópu-samsæri í gangi. Allavega fór ég yfir einkunnirnar mínar og sá að þetta voru hin ágætustu lög sem komust áfram, Hvíta Rússland og Serbía voru reyndar hörmung, en hin lögin voru með þeim betri í keppninni. Ég var þó hissa á að Kýpur kæmist ekki áfram, það fannst mér bæði júróvísjónlegt og fínt. Þau lög sem mér fannst best komust áfram og þar sem ég hef ekki heyrt lögin sem komin eru í úrslit (nema Úkraínu, sem er ömurlegt) held ég með Ungverjalandi og Makedóníu.

Heyrið annars! Ef röddin mín og heilsa lofar syng ég ein fjögur lög á ljóðadeildartónleikum í skólanum mínum á miðvikudagskvöldið. Það er að sjálfsögðu öllum sem áhuga hafa velkomið að kíkja við, því nú hyggst ég leggja söngnámið á hilluna og halda sem mest kjafti og því ekki seinna vænna að heyra í mér. Ég auglýsi þetta betur er nær dregur.

Nú ætla ég aftur á móti að þýða og drekka viskí.

Að skríða saman

Já, það getur verið gaman að skríða saman. Sérstaklega þegar maður er búinn að vera lasinn. Nú held ég að ég sé allur að koma til. Allavega fór ég í Vínbúðina í dag og keypti mér litla flösku (ekki pela) af Frægu skógarhænsni og ætla henni að hjálpa mér yfir síðasta þröskuldinn í átt að heilsu og fullkominni hamingju. Já, þetta er búinn að vera hálf ömurleg pesti. Ég missti t.d. af Erlu Dóru Vogler syngja á tónleikum sínum síðasta sunnudag og missti af Vox Academica flytja þýsku sálumessuna eftir Brahms og það sem verra var, ég missti af öllu golfinu sem ég ætlaði að spila síðustu helgi. Í kvöld fór ég á burtfarartónleika með Dagrúnu Ísabellu, sem er nemandi úr Söngskóla Sigurðar Demetz og voru þeir hreint prýðilegir. Drullufín rödd og assgoti góð leikkona líka, þannig að hún á framtíðina fyrir sér.

Tuesday, May 8, 2007

Æi, þetta er þarna kallinn hennar Sigguláru

Já, nú er konan orðin svo fræg að ég sé fram á að hér eftir (sem áður) verði ég einungis þekktur sem maðurinn hennar Sigguláru. Og það er nú svo sem alls ekkert leiðinlegt. Eiginlega bara gaman. Eiginlega bara ekkert eiginlega með það. Já, ég sagði henni nú allan tímann að leikritið hennar "Listin að lifa" yrði fyrir valinu sem áhugaleiksýning ársins, en hún tók það nú aldrei sérlega alvarlega. Verst að það fer að verða erfiðara fyrir mig að Ortona hana úr þessu(ekki víst að allir skilji hvað sögnin "að Ortona" þýðir, en það er nú bara skemmtilegt að giska þá).

Svo er ég enn veikur. Algjör aumingi. Já, hann er nú meiri auminginn, þarna, kallinn hennar Sigguláru.

Sunday, May 6, 2007

Hor

Enn að snýta mér...

Saturday, May 5, 2007

Veikur

Úff, ekki ætlar þessi helgi að verða jafnmikil menningar-, golf,- og drykkjuhelgi og vonast var til. Ég er kominn með hálsbólgu og hita og finn að kvefið er koma á fullri ferð. Ég sem hafði hugsað mér á eina til tvo tónleika og liggja svo í golfi á Þorlákshöfn. Þetta ætlaði ég að gera þar sem við Róbert erum einir heima um helgina. En nei, í staðinn er ég hundlasinn og þýðandi og prófarkalesandi.

Ég náði þó að fara með Róberti í bíó í gær og í fyrrakvöld fór ég á vortónleika Kvennakórs Reykjavíkur. Sá kór er á leiðinni út í kórakeppni og býst ég við að þeim eigi eftir að ganga með ágætum vel. Allavega hljómaði kórinn virkilega fallega. Gunnar Guðbjörnsson fannst mér reyndar óþarflega áberandi á þessum tónleikum, ég skildi í raun ekki af hverju hann var látinn syngja 5 einsöngslög á kórtónleikum. En ég hef svo sem ekki verið allt of duglegur að fara á kórtónleika, svo kannski er þetta algengt. Það breytir því ekki að þetta voru þrusufínir tónleikar og ég óska Kvennakórnum alls hins besta í útlandinu.

Og nú þarf ég að snýta mér.

Monday, April 30, 2007

Sumar (hallæristitill)

Geisp. Klukkan margt. En konan ætlar að leyfa mér að sofa út á morgun, svo það er allt í lagi.

Ég hef ekkert að segja.

Ég vona að Liverpool vinni á morgun, stórt.

Ég held að Gunna Ö sé ekki lygari. Og ekki Jónína. Ég held að nefndin hafi bara ætlað að vera góð. Óheppni bara.

Ég skil samt alveg fúlu 'loksins loksins Íslendingana'.

Týpískur ég, að halda með báðum.

En ég held þó allavega ekki með Chelsea! Brenni þeir í víti! (Syngist við "Brennið þið, vitar")

Monday, April 23, 2007

Hefurðu aldrei nennt að lesa Laxness?

"Heldurðu kannski að hann sé hátíðlegur og leiðinlegur? Að það sé eitthvert skringilegt mál á þessum óendanlega mörgu bókum hans og stafsetningin tóm vitleysa?"

Góðu fréttirnar eru að þú getur sleppt því að lesa hann, aulinn þinn! Og þarft ekki að borga krónu!

Thursday, April 19, 2007

Gleðilegt sumar!!!

Kæru vinir!

Fór á Epli og eikur(eftir hina bráðskemmtilegu Tótu) síðasta vetrardag og hló mikið.

Fór í framhaldi af því í heimahús og drakk bjór, kaffi, rauðvin og borðaði ógrynni af poppi og súkkulaðiánamöðkum langt fram á sumar. Það var líka gaman.

Og nú er það enn ein fermingin á Akureyri.

Þakka öllum fyrir veturinn!

Gleðilegt sumar,
Árni

Sunday, April 15, 2007

Bíó, bíó, leikhús og ópera!

Tengdamamma kom um helgina, aðallega í þeim tilgangi að passa, svo ekki gat ég setið heima og horft á sjónvarpið. Byrjaði á að sjá 300 í bíó. Hafði bara nokkuð gaman af. Er skítsama um sögufölsunina sem margir einblína á, ég sé ekki fyrir mér að þessi mynd verði einhvern tímann notuð í sögukennslu í framhaldsskóla. Daginn eftir fór ég svo með Róberti að sjá TNMT eða TMNT, man ekki alveg. Það var mynd um ninjaskjaldbökubræður og pabba þeirra, sem var einhvers lags rotta. Hún var nú bara alveg ágæt líka (myndin og rottan). Svo fór ég með frúnni að sjá leikritið Bingó eftir Hrefnu, "systur" mína. Það var gaman. Feikna skemmtilegir leikararar og leikstjóri þar á ferð. Svo fór ég í óperuna í gær og sá Cavelleria Rusticana eftir Mascagni. Það var drullugott. Elín Ósk fór sérdeilis á kostum. Virkilega flott uppsetning, það eina sem pirraði mig var hvað einsöngvararnir voru allir vel klæddir.

Svo ætla ég loksins að drífa mig á Epli og Eikur á miðvikudaginn. Og kannski jafnvel á Lífið - notkunarreglur næstu helgi og svo Hugleik í kjallaranum í næstu viku og svo Hjónabandsglæpi og Cymbeline í Þjóðleikhúsinu og... hvar endar þetta eiginlega? Ég ætti kannski að semja við tengdamömmu að vera lengur?

Thursday, April 12, 2007

Ég er klaufi

Konan nýbúin að elda sér hádegismat þegar ég skelli innkaupapokanum upp á eldavélina og byrja að tína úr honum inn í ísskáp. Skyndilega finn ég einkennilega lykt og segi "sjitt" á innsoginu og ríf pokann af eldavélinni, en botninn varð eftir suður á Hellu og restin af matvörunum hrynur á gólfið, nema mjólkurkexið. Eins gott að Gyða er ekki orðin nógu gömul til að spyrja: "Pabbi, af hverju er kexið mitt svart og skrýtið á bragðið?"

Já, kexið frá Fróni kemur við sögu á hverjum degi.

Tuesday, April 10, 2007

Ég er kominn aftur...

...eftir langt og gott páskafrí. Tók mér frí frá þýðingum og öllu(gaulaði smá reyndar) og fór bæði til Akureyrar og Egilsstaða. Fékk fínan saltfisk á Hótel KEA, sá Sverri bróður slá í gegn sem prímadonna í Prímadonnunum, fór á söngtónleika á Eskifirði, borðaði, svaf, spilaði PES, horfði á fínt sjónvarp (Motorcycle Diaries og Gasolin) og fitnaði þónokkuð. Og í tilefni af því ætla ég að fá mér pítsu.

Wednesday, March 28, 2007

Ég á góða konu

Jeij, nú á dögunum röltum við konan í bæinn og komum við í Nexus, þar sem konan keypti handa mér ALLAR FIMM seríur Six Feet Under. Er strax byrjaður að glápa og finnst hreinn unaður. Sá á sínum tíma bara hluta af fyrstu seríu og ekkert af 4. og 5. seríu. Persónurnar eru eitthvað svo fáránlegar, fyndnar, og um leið eitthvað svo sannar. Snilldar þættir. Nammi, nammi.

Annars er mikið að gera við þýðingar og söng, og annað kvöld er ég að fara að horfa á King Lear með nýja leikrita/kvikmyndaklúbbnum mínum, sem samanstendur af eintómum snillingum. Ætlunin er að reyna að taka eitt leikrit/kvikmynd fyrir í mánuði, og það er vonandi að þetta gangi sem lengst. Ég lít á þetta sem langan háskólakúrs og finnst þetta ein besta hugmynd sem okkur félögunum hefur dottið í hug í háa herrans tíð. Kvikmynd, viskí og leikritakrufning! Smjatt, smjatt.

Sunday, March 25, 2007

Ég fór í óperuna

Sá óperustúdíó Íslensku óperunnar flytja tvo óperueinþáttunga Puccinis: Suor Angelica og Gianni Schicchi. Var virkilega ánæðgur með krakkana! Virkilega sungið og stemningin í þáttunum alveg mögnuð. Frá byrjun hreifst ég með rólyndisnunnuklausturstemningunni í fyrri þættinum og sviðsmyndin var til fyrirmyndar. Þó fannst mér leikstjórinn aðeins of gjarn á að stilla 'söngnúmerunum' upp fyrir miðju sviði, það var þó enn meira áberandi í seinni þættinum. Maríu Jónsdóttir þekki ég ekki neitt, en hún lék Angelicu með miklum bravúr, í stóru og erfiðu hlutverki. Þó fannst mér eins og vantaði einhverja tilfinningu í lokin. En þar vil ég kannski aftur kenna leikstjóranum um og þó aðallega þeim leiða ávana mínum að fara að hugsa hvað ég hefði nú gert, í staðinn fyrir að sitja bara og njóta sýningarinnar. Já, það getur verið hundleiðinlegt að hafa skoðanir á hlutunum! En hún María á greinilega óperusviðsframtíðina fyrir sér, og það sama má segja um Ásgeir Pál Ágústsson, sem lék titilhlutverkið í seinna verkinu. Hann var hreint frábær, enda býður hlutverkið upp á mikinn húmor og ég hef sjaldan hlegið jafn dátt í óperunni. Svo voru samnemendur mínir úr Söngskóla Sigurðar Demetz, Dagrún Leifsdóttir og Unnur Helga Möller auðvitað góðar, sem og hugleikskur félagi minn, hún Erla Dóra Vogler. Bravó söngnemendur! Og djöfull er þetta góð hugmynd að vera með þetta Óperustúdíó, vonandi heldur næsti óperustjóri þessu áfram.

Þetta var svona mínírýni.

Friday, March 23, 2007

Nú er ég að hugsa um að hætta að nota 'ég' í fyrirsögninni... doh

Það er föstudagskvöld. Konan að frumsýningarpartíjast. Sonurinn að ömmu og afast. Dóttirin að sofa. Ég prófarkast, drekk te og velti fyrir mér hvað Hugo Wolf lieder ég eigi að glíma við næst. Fór á bókasafnið og í kvöld og fékk mér nokkrar bækur. Þar á meðal frábærlega innihaldsríka bók um sönglög Wolfs. "The Songs of Hugo Wolf" eftir Eric Sams, þar sem hann Eric greinir hvert einasta lag. Þvílík snilld! Ég held mig við Mörike-kaflann, þar sem ég er búinn að læra 2 lög (Fussreise og Auf ein altes Bild) og á ekki nema 51 eftir! Er svolítið spenntur fyrir 'Der Knabe und das Immlein' og 'Ein Stundlein whol vor Tag', en hugsa samt að ég byrji kannski á 'Verborgenheit', þar sem ég þekki það ágætlega fyrir.

Og sjónvarpið hefur fengið að vera slökkt í kvöld, nema ég horfði á hrikalega spennandi 'Gettu betur'-þátt. Einhverra hluta vegna hélt ég með MK, þannig að þetta var hið besta mál. Hörkuskemmtilegur þáttur og annað hvort er ég orðinn heilmikið klárari með aldrinum, eða Davíð Þór er einfaldlega með léttari spurningar en voru í denn. Ég ætla að leyfa mér að halda mig við fyrri skýringuna.

Já, þetta föstudagskvöld er bara helv. magnað!

Thursday, March 22, 2007

Ég er sennilega svolítill nörd

Síðastliðinn laugardag sýndi RÚV kvikmyndina Caché, franska mynd eftir umdeildan leikstjóra og með eðalleikurum. Mynd sem ég hafði lengi ætlað mér að sjá. Ég gladdist því mikið, hlakkaði til allan daginn og tók mér síðan bólfestu fyrir framan sjónvarpið klukkan 22:30. Mjög áhugaverð mynd, sem gerði mann strax forvitinn og hélt manni á tánum til enda. En... um miðja mynd kom mjög einkennileg klipping. Maður rífur upp teikningu úr fórum sínum og gengur öskureiður að óvini sínum þegar klippt er á svartan skjá í 10-15 sekúndur og síðan er kona mannsins allt í einu að tala við yfirmann sinn á veitingastað. Ekki kippti ég mér nú mikið upp við þetta, þar sem þetta var jú vissulega listræn mynd og það hlaut bara eitthvað rosalegt að hafa gerst í þessari klippingu sem áhorfandinn átti ekki að fá að sjá eða heyra af strax. Svo leið myndin og kláraðist. Og ég var bara nokkuð sáttur, þar til ég áttaði mig á að nú voru 25 mínútur fram að næsta dagskrárlið!!! Auðvitað rauk ég beint á imdb.com og sá að myndin átti að vera 117 mínútur en ekki 90 eins og RÚV vildi meina. Myndin sem mér hafði fundist barasta prýðileg, var nú skyndilega eyðilögð! Ónýt! Andskotans drasl! Þetta gekk svo langt að ég sendi kvörtun til RÚV, sem játaði glæpinn en kenndi tækninni um og sagði að myndin yrði endursýnd... einhvern tímann. Nú? Ætlar RÚV að fara að endursýna myndir? Það er eitthvað nýtt.

Ég tók viðtöl við sjö mismunandi fólk

Stundum þegar maður prófarkales verður maður pirraður yfir vondum þýðingum. En stundum hlær maður nú bara og slær sér á lær.

Minnir mig líka á hraustu hetjurnar í "Arnarborginni" sem ákváðu að ýta bíl yfir klettavegginn (over the cliff).

Tuesday, March 20, 2007

Ég er ekki sérlega gáfaður

Hví ætlarðu þá að blogga?

-Bara.

Bara er ekkert svar.

-Bara af því að mér finnst gaman að skrifa alls konar bull, má ég það ekki?

Jújú, ætli það ekki. En hvað meinarðu með alls konar bull?

-Sko, það eina sem ég meina er að ef að læðist eitthvað hér inn sem flokkast undir skoðanir og pólitík, þá er það alveg óvart. Auk þess verða heimspekilegar vangaveltur áreiðanlega fátíðar.

-Hvað ætlarðu þá að skrifa? Tíðindi úr eigin lífi?

Sennilega ekki, konan er ágæt í því.

-Hvað þá?

Humm, góð spurning. Þetta verður kannski bara eina færslan. Jæja, við skulum sjá til.