Wednesday, March 28, 2007

Ég á góða konu

Jeij, nú á dögunum röltum við konan í bæinn og komum við í Nexus, þar sem konan keypti handa mér ALLAR FIMM seríur Six Feet Under. Er strax byrjaður að glápa og finnst hreinn unaður. Sá á sínum tíma bara hluta af fyrstu seríu og ekkert af 4. og 5. seríu. Persónurnar eru eitthvað svo fáránlegar, fyndnar, og um leið eitthvað svo sannar. Snilldar þættir. Nammi, nammi.

Annars er mikið að gera við þýðingar og söng, og annað kvöld er ég að fara að horfa á King Lear með nýja leikrita/kvikmyndaklúbbnum mínum, sem samanstendur af eintómum snillingum. Ætlunin er að reyna að taka eitt leikrit/kvikmynd fyrir í mánuði, og það er vonandi að þetta gangi sem lengst. Ég lít á þetta sem langan háskólakúrs og finnst þetta ein besta hugmynd sem okkur félögunum hefur dottið í hug í háa herrans tíð. Kvikmynd, viskí og leikritakrufning! Smjatt, smjatt.

Sunday, March 25, 2007

Ég fór í óperuna

Sá óperustúdíó Íslensku óperunnar flytja tvo óperueinþáttunga Puccinis: Suor Angelica og Gianni Schicchi. Var virkilega ánæðgur með krakkana! Virkilega sungið og stemningin í þáttunum alveg mögnuð. Frá byrjun hreifst ég með rólyndisnunnuklausturstemningunni í fyrri þættinum og sviðsmyndin var til fyrirmyndar. Þó fannst mér leikstjórinn aðeins of gjarn á að stilla 'söngnúmerunum' upp fyrir miðju sviði, það var þó enn meira áberandi í seinni þættinum. Maríu Jónsdóttir þekki ég ekki neitt, en hún lék Angelicu með miklum bravúr, í stóru og erfiðu hlutverki. Þó fannst mér eins og vantaði einhverja tilfinningu í lokin. En þar vil ég kannski aftur kenna leikstjóranum um og þó aðallega þeim leiða ávana mínum að fara að hugsa hvað ég hefði nú gert, í staðinn fyrir að sitja bara og njóta sýningarinnar. Já, það getur verið hundleiðinlegt að hafa skoðanir á hlutunum! En hún María á greinilega óperusviðsframtíðina fyrir sér, og það sama má segja um Ásgeir Pál Ágústsson, sem lék titilhlutverkið í seinna verkinu. Hann var hreint frábær, enda býður hlutverkið upp á mikinn húmor og ég hef sjaldan hlegið jafn dátt í óperunni. Svo voru samnemendur mínir úr Söngskóla Sigurðar Demetz, Dagrún Leifsdóttir og Unnur Helga Möller auðvitað góðar, sem og hugleikskur félagi minn, hún Erla Dóra Vogler. Bravó söngnemendur! Og djöfull er þetta góð hugmynd að vera með þetta Óperustúdíó, vonandi heldur næsti óperustjóri þessu áfram.

Þetta var svona mínírýni.

Friday, March 23, 2007

Nú er ég að hugsa um að hætta að nota 'ég' í fyrirsögninni... doh

Það er föstudagskvöld. Konan að frumsýningarpartíjast. Sonurinn að ömmu og afast. Dóttirin að sofa. Ég prófarkast, drekk te og velti fyrir mér hvað Hugo Wolf lieder ég eigi að glíma við næst. Fór á bókasafnið og í kvöld og fékk mér nokkrar bækur. Þar á meðal frábærlega innihaldsríka bók um sönglög Wolfs. "The Songs of Hugo Wolf" eftir Eric Sams, þar sem hann Eric greinir hvert einasta lag. Þvílík snilld! Ég held mig við Mörike-kaflann, þar sem ég er búinn að læra 2 lög (Fussreise og Auf ein altes Bild) og á ekki nema 51 eftir! Er svolítið spenntur fyrir 'Der Knabe und das Immlein' og 'Ein Stundlein whol vor Tag', en hugsa samt að ég byrji kannski á 'Verborgenheit', þar sem ég þekki það ágætlega fyrir.

Og sjónvarpið hefur fengið að vera slökkt í kvöld, nema ég horfði á hrikalega spennandi 'Gettu betur'-þátt. Einhverra hluta vegna hélt ég með MK, þannig að þetta var hið besta mál. Hörkuskemmtilegur þáttur og annað hvort er ég orðinn heilmikið klárari með aldrinum, eða Davíð Þór er einfaldlega með léttari spurningar en voru í denn. Ég ætla að leyfa mér að halda mig við fyrri skýringuna.

Já, þetta föstudagskvöld er bara helv. magnað!

Thursday, March 22, 2007

Ég er sennilega svolítill nörd

Síðastliðinn laugardag sýndi RÚV kvikmyndina Caché, franska mynd eftir umdeildan leikstjóra og með eðalleikurum. Mynd sem ég hafði lengi ætlað mér að sjá. Ég gladdist því mikið, hlakkaði til allan daginn og tók mér síðan bólfestu fyrir framan sjónvarpið klukkan 22:30. Mjög áhugaverð mynd, sem gerði mann strax forvitinn og hélt manni á tánum til enda. En... um miðja mynd kom mjög einkennileg klipping. Maður rífur upp teikningu úr fórum sínum og gengur öskureiður að óvini sínum þegar klippt er á svartan skjá í 10-15 sekúndur og síðan er kona mannsins allt í einu að tala við yfirmann sinn á veitingastað. Ekki kippti ég mér nú mikið upp við þetta, þar sem þetta var jú vissulega listræn mynd og það hlaut bara eitthvað rosalegt að hafa gerst í þessari klippingu sem áhorfandinn átti ekki að fá að sjá eða heyra af strax. Svo leið myndin og kláraðist. Og ég var bara nokkuð sáttur, þar til ég áttaði mig á að nú voru 25 mínútur fram að næsta dagskrárlið!!! Auðvitað rauk ég beint á imdb.com og sá að myndin átti að vera 117 mínútur en ekki 90 eins og RÚV vildi meina. Myndin sem mér hafði fundist barasta prýðileg, var nú skyndilega eyðilögð! Ónýt! Andskotans drasl! Þetta gekk svo langt að ég sendi kvörtun til RÚV, sem játaði glæpinn en kenndi tækninni um og sagði að myndin yrði endursýnd... einhvern tímann. Nú? Ætlar RÚV að fara að endursýna myndir? Það er eitthvað nýtt.

Ég tók viðtöl við sjö mismunandi fólk

Stundum þegar maður prófarkales verður maður pirraður yfir vondum þýðingum. En stundum hlær maður nú bara og slær sér á lær.

Minnir mig líka á hraustu hetjurnar í "Arnarborginni" sem ákváðu að ýta bíl yfir klettavegginn (over the cliff).

Tuesday, March 20, 2007

Ég er ekki sérlega gáfaður

Hví ætlarðu þá að blogga?

-Bara.

Bara er ekkert svar.

-Bara af því að mér finnst gaman að skrifa alls konar bull, má ég það ekki?

Jújú, ætli það ekki. En hvað meinarðu með alls konar bull?

-Sko, það eina sem ég meina er að ef að læðist eitthvað hér inn sem flokkast undir skoðanir og pólitík, þá er það alveg óvart. Auk þess verða heimspekilegar vangaveltur áreiðanlega fátíðar.

-Hvað ætlarðu þá að skrifa? Tíðindi úr eigin lífi?

Sennilega ekki, konan er ágæt í því.

-Hvað þá?

Humm, góð spurning. Þetta verður kannski bara eina færslan. Jæja, við skulum sjá til.