Monday, October 13, 2008

Til hamingju með 100 ára afmælið, Steinn Steinarr!

LEIKSÝNING (úr ljóðabókinni "Ljóð" frá 1937)

Hin mikla leiksýning
var loks á enda.
Eins og logandi blys
hafði leikur minn risið
í hamslausri gleði
og friðlausri kvöl,
uns hann féll á ný
í skoplegri auðmýkt
til upphafs síns.
Það var lífið sjálft,
það var leikur minn.
Og ég leit fram í salinn
og bjóst við stjórnlausum fögnuði
fólksins.
En þar var enginn.
Og annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.

Tuesday, October 7, 2008

Mér finnst gaman að kenna!

Einhver nemandi minn hefur slysast inn á þessa aumingja síðu mína og kosið að túlka orð mín úr síðustu færslu á þann veg að mér finnist leiðinlegt að kenna. Þetta er ókosturinn við hið ritaða orð, það sést ekki alltaf hvenær maður er að reyna að vera fyndinn. En mér finnst sem sagt gaman að kenna og ég geng aldrei í bikíni. Dagsatt. Nú er ég ekki að reyna að vera fyndinn. Og nú þori ég aldrei að vera fyndinn aftur, eða nei... ok, alltaf þegar ég skrifa eitthvað sem mér finnst fyndið (gerist sjaldan, blogga sjaldan) skrifa ég svona: (HLÁTUR). Dæmi: Einu sinni áttu nemendur að þýða orðið "rhino" á enskuprófi. Flestir skrifuðu nashyrningur, einhverjir skrifuðu einhyrningur, þrír teiknuðu mynd af nashyrningi og tveir skrifuðu "þríhyrningur" (HLÁTUR).
Auðvitað finnst mér gaman að kenna!