Thursday, February 26, 2009

Wednesday, February 25, 2009

Kæri Davíð

Já, já, þú ert merkilegur maður. Já, já og umdeildur. Já, já, þú ert þú ert þú. Eða eins og þú orðar það svo vel: Ég, ég, ég, ég, ég, væl, væl, væl, ég, ég.

En ef ég lít á þetta út frá þinni aðferðafræði er auðvelt að komast að eftirfarandi niðurstöðu:

Aðeins þú og enginn nema þú væri ekki löngu búinn að segja af sér. Sættu þig við það. Þú ert seðlabankastjóri. Seðlabankastjóri seðlabanka sem brást, sama hvað þú segir. Seðlabankastjóri þarf því að fara. sem sagt. Þú þarft að fara. Þú átt að vera löngu farinn. Hvað ert þú þá að undra þig yfir því að það þurfi að eyða tíma í búa til ný lög til að bola þér í burtu. Það ert þú sem ert að eyða tíma þingsins.

Davíð, þú varst búinn að margvara ríkisstjórnina við. Þú vissir hvert stefndi nánast frá upphafi. Dabbi minn, þú ert seðlabankastjóri. Ekki er það nú sannfærandi seðlabankastjóri sem tekst ekki að sannfæra aðra. Þér mistókst hrapalega í þinu starfi. Það virðast allir sjá það nema þú. Eða eins og þú orðar það svo vel: Ég, ég, ég, ég, ég, væl, væl, væl, ég, ég.

Davíð, ég og ég og ég og ég erum búnir að fá nóg af þessu væli í þér. Ekki fara aftur í pólitík eftir seðlabankann. Þú ert búinn að skjóta þig nógu oft í bakið. Fáðu þér te og skrifaðu smásögu.

kveðja,

Músin segir mjámjá

Tuesday, February 24, 2009

Á Sprengidegi (étum, étum, étum okkur sadda...)

Nú er ég mettur. Var að koma úr mánaðarlegum hádegissaumaklúbbi nokkurra gamalla MA-skólafélaga og snæddi þar til dæmis sardínur og hráar eggjarauðu. Í kvöld er það svo saltkjötið góða og baunirnar og í gær voru það bollur, svo að ekki léttist ég mikið í þessari viku.

En ég lofaði mér víst að punkta reglulega niður einhverju um menninguna sem ég upplifi.

Síðan um jólin hef ég lesið 3 bækur:

Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Ég er hrifinn af smásögum Guðrúnar Evu. Litlar og laufléttar myndir úr samtímanum. Skaparinn er fyrsta skáldsaga hennar sem ég les og er bæði metnaðarfull og áhugaverð. Til að byrja með fannst mér ég vera að lesa Braga Ólafsson, þar sem undar legar aðstæður persónanna minntu mig á Gæludýrin og Sendiherrann. Ég las þessa bók af þónokkurri ánægju. Oft á tíðum komu upp skemmtilegar hugleiðingar og persónur voru áhugaverðar, en ég get ekki sagt að ég hafi fyllilega skilið þessa bók. Ég er ekki viss um að ég geti útskýrt um hvað hún er, mér fannst eitthvað vanta. Engu að síður langar mig að lesa meira eftir Guðrúnu Evu. Yosoy bíður betri tíma.

Rökkurbýsnir eftir Sjón.

"Rökkurbýsnir eru yndi til lestrar, aðgengilegar öllum lesendum, frásögnin spennandi og alþýðleg, ekkert nema rasssæri rekur mann á fætur. Góða skemmtun!" Sigurður Hróarsson, Fréttablaðið

Leyfið mér að umorða. "Rökkurbýsnir eru ekki yndi til lestrar, alls ekki aðgengilegar öllum lesendum, frásögnin óspennandi og alþýðleg, ekkert nema rasssæri kemur í veg fyrir að maður sofni. Góða nótt!" Árni Friðriksson, Músin segir mjá mjá.

Lesið frekar Íslandsklukkuna.

Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur.

Líka fyrsta bók sem ég les eftir Auði, sem er skammarlegt, þar sem hún var í MA um leið og ég. Vetrarsól er sennilega ein auðlesnasta bók í heimi þegar maður les hana strax á eftir Rökkurbýsnum. Hún er skemmtileg, spennandi og vel skrifuð. Það er til dæmis mjög lipurlega flakkað aftur í tímann. Plottið gengur líka alveg upp, en tónn bókarinnar breytist nokkuð í lok bókarinnar þegar kemur að uppgjöri og verður myrkari. Þessi myrki tónn sló mig svolítið út af laginu. En skemmtileg bók. Fólkið í kjallaranum bíður betri tíma.


Væntanlegt í menningarhorninu: Bækur: Bókaþjófurinn, Leikhús: Rústað

Sunday, January 25, 2009

Lokasýningarrotta

Ég virðist vera kominn með lokasýningarkækinn. Hann lýsir sér þannig að einu sinni í mánuði klárast sýningar á einhverju sem mig langar að sjá og þá kippist ég óþyrmilega á síðustu sýninguna. Ég er reyndar mjög feginn þessum kæk, þar sem áður en hann kom upp var ég gjarnari á að missa af þessum sýningum, sem mér þótti oft miður. En að þessum sökum sá ég Makbeð í nóvember, Vestrið eina í desember og nú í kvöld sá ég Steinar í djúpinu.

Ókosturinn við að vera með þennan kæk, eru þeir að það þjónar litlum tilgangi að mæla með þessu sýningum við fólk. En ég get með góðri samvisku og af töluverðum kvikindisskap (við þá sem ekki sáu) mælt með þeim öllum.

Makbeð: Blóð, blóð, blóð, hasar og hrööööð atburðarrás þar sem Makbeð og lafðin stóðu ekki bara á bak við morðin, þau sáu um það algjörlega sjálf. Morðingi 1 og 2 úti í kuldanum. Mónólógar hvergi sjáanlegir í sennilega undirlegustu, en þeirri langeftirminnilegustu Makbeðsýningu sem ég hef séð.

Vestrið eina: Blót, blót, blót, hasar og stórhættuleg sýning þar sem gat allt eins átt von á að fá kartöflu í hausinn. Frábær leikur og fyndnara en andskotinn. Sé svakalega eftir að hafa ekki séð neitt annað eftir höfundinn. Sko, þessi kækur kemur allt of seint.

Steinar í djúpinu: Vá! Kom mér verulega á óvart. Var pínu skeptískur, verkið byggt á texta eftir ljóðskáld og þess háttar og ég átti von á einhverjum óræðum, ljóðrænum svipmyndum. Vá, hvað þú ert sjalló, Árni. Verulega heilsteypt verk sem varð manni á köflum hrein upplifun. Leikmynd góð, lýsing frábær og tónlistin meiriháttar. Og ég á bara ekki orð yfir textanum. :) Ólafur Darri, Harpa Arnardóttir og Árni Pétur að öðrum ólöstuðum frábær.

Svo er bara að sjá hvaða sýningu er að ljúka í febrúar.

Thursday, January 15, 2009

Fimmtudagur, 15 jan kl. 13:50

Friðrik sefur.
Inn í þvottahúsi mallar þvottavélin.
Uppþvottavélin í eldhúsinu reynir að halda í við hana.
Húsverkum er lokið og bara nokkuð snyrtilegt í litlu íbúðinni.
Monteverdi er lágt stilltur, en smýgur auðveldlega inn í undirmeðvitundina þar sem hann er ávallt velkominn.
Ég sit í hægindastól með bók, Skaparann eftir Guðrúnu Evu, og les.
Á Íslandi er kreppa.
Í lítilli stofu í Vesturbænum er lífið dásamlegt.

Friday, January 9, 2009

Nýtt ár, ný fyrirheit

Til hamingju með árið. 

Ég ætla að strengja nokkur áramótaheit. 

1. Missa 5 kíló á árinu. Núna eftir jólin er ég orðinn 83,5 og ætla því að verða 70 og eitthvað.
2. Fara á grunnnámskeið í stærðfræði.
3. Blogga oftar en 2008. Strax kominn vel af stað með það.
4. Gera eitthvað menningarlegt á hverjum degi og blogga um það reglulega.
5. Reyna eins og ég get að skrá mig ekki á fésbók.
6. Vera góður.
7. Mótmæla allavega tvisvar.
8. Vera duglegur að skrifa (ekki bara blogg).
9. Vinna hlutverkið "Besti vinur Friðriks" af Sigguláru núna í feðraorlofinu.
10. Nota nýju, feitu, ítölsku matreiðslubókina sem við fengum í jólagjöf.

Menning dagsins: Las "Herra Pip" eftir Lloyd Jones fyrir og um jólin. Áhugaverð og vekur hjá manni áhuga á að lesa nú einhvern tímann heila Dickens-bók (hef byrjað á þeim nokkrum og kláraði reyndar Ólíver Twist). Í Herra Pip er það Great Expectations sem er stöðugt vitnað í og bókin byrjar sem frekar sakleysislegar æskuminningar og kemur svo nokkuð hressilega aftan að manni þegar líða tekur á hana. Gæti orðið nokkuð áhrifamikil kvikmynd, kannski ég gái fyrir næsta blogg hvort hún sé komin á imdb.

Monday, November 10, 2008

Mitt framlag

Mér líður vel.

Lífið er dásamlegt.

Knús á alla broslausa.