Sunday, March 25, 2007

Ég fór í óperuna

Sá óperustúdíó Íslensku óperunnar flytja tvo óperueinþáttunga Puccinis: Suor Angelica og Gianni Schicchi. Var virkilega ánæðgur með krakkana! Virkilega sungið og stemningin í þáttunum alveg mögnuð. Frá byrjun hreifst ég með rólyndisnunnuklausturstemningunni í fyrri þættinum og sviðsmyndin var til fyrirmyndar. Þó fannst mér leikstjórinn aðeins of gjarn á að stilla 'söngnúmerunum' upp fyrir miðju sviði, það var þó enn meira áberandi í seinni þættinum. Maríu Jónsdóttir þekki ég ekki neitt, en hún lék Angelicu með miklum bravúr, í stóru og erfiðu hlutverki. Þó fannst mér eins og vantaði einhverja tilfinningu í lokin. En þar vil ég kannski aftur kenna leikstjóranum um og þó aðallega þeim leiða ávana mínum að fara að hugsa hvað ég hefði nú gert, í staðinn fyrir að sitja bara og njóta sýningarinnar. Já, það getur verið hundleiðinlegt að hafa skoðanir á hlutunum! En hún María á greinilega óperusviðsframtíðina fyrir sér, og það sama má segja um Ásgeir Pál Ágústsson, sem lék titilhlutverkið í seinna verkinu. Hann var hreint frábær, enda býður hlutverkið upp á mikinn húmor og ég hef sjaldan hlegið jafn dátt í óperunni. Svo voru samnemendur mínir úr Söngskóla Sigurðar Demetz, Dagrún Leifsdóttir og Unnur Helga Möller auðvitað góðar, sem og hugleikskur félagi minn, hún Erla Dóra Vogler. Bravó söngnemendur! Og djöfull er þetta góð hugmynd að vera með þetta Óperustúdíó, vonandi heldur næsti óperustjóri þessu áfram.

Þetta var svona mínírýni.

No comments: