Thursday, March 22, 2007

Ég er sennilega svolítill nörd

Síðastliðinn laugardag sýndi RÚV kvikmyndina Caché, franska mynd eftir umdeildan leikstjóra og með eðalleikurum. Mynd sem ég hafði lengi ætlað mér að sjá. Ég gladdist því mikið, hlakkaði til allan daginn og tók mér síðan bólfestu fyrir framan sjónvarpið klukkan 22:30. Mjög áhugaverð mynd, sem gerði mann strax forvitinn og hélt manni á tánum til enda. En... um miðja mynd kom mjög einkennileg klipping. Maður rífur upp teikningu úr fórum sínum og gengur öskureiður að óvini sínum þegar klippt er á svartan skjá í 10-15 sekúndur og síðan er kona mannsins allt í einu að tala við yfirmann sinn á veitingastað. Ekki kippti ég mér nú mikið upp við þetta, þar sem þetta var jú vissulega listræn mynd og það hlaut bara eitthvað rosalegt að hafa gerst í þessari klippingu sem áhorfandinn átti ekki að fá að sjá eða heyra af strax. Svo leið myndin og kláraðist. Og ég var bara nokkuð sáttur, þar til ég áttaði mig á að nú voru 25 mínútur fram að næsta dagskrárlið!!! Auðvitað rauk ég beint á imdb.com og sá að myndin átti að vera 117 mínútur en ekki 90 eins og RÚV vildi meina. Myndin sem mér hafði fundist barasta prýðileg, var nú skyndilega eyðilögð! Ónýt! Andskotans drasl! Þetta gekk svo langt að ég sendi kvörtun til RÚV, sem játaði glæpinn en kenndi tækninni um og sagði að myndin yrði endursýnd... einhvern tímann. Nú? Ætlar RÚV að fara að endursýna myndir? Það er eitthvað nýtt.

5 comments:

Magnús said...

Það er allt í klessu á RÚV. Vondar þýðingar eru til dæmis orðnar nokkuð algengar, sem var ekki raunin hér áður fyrr.

Þórunn Gréta said...

Anda inn - anda út - anda inn - anda út ...

Árni Friðriksson said...

Þetta er allt í lagi, Þórunn, ég er ekki eins æstur og ég sýnist. Þetta er meira í lyklaborðinu mínu en sálinni. En mér finnst nú samt lágmark þegar verið er að sýna góðar myndir á RÚV, að gera það almennilega. Gamla góða 'afsakið hlé' hefði verið fínt. Eða bara endursýna hana fljótlega, þess vegna eftir venjubundna dagskrá. En við skulum nú gefa þeim séns með það. Ég er ekki viss um að 'Psycho' hefði verið eins góð ef það hefði vantað í hana miðjuna.

Jú, Magnús, það er hugsanlega rétt. Ég þekki þó þýðendur þar, fleiri en einn, sem standa sig með mikilli prýði.

Magnús said...

Já, ég ætti að tóna hrottaskapinn niður. Ég hef aðallega nokkur skelfileg dæmi í huga: Ali G Indahouse, jólaþátt The Office og heimildarmyndina um Maó. Ég ætti að vita betur en að slengja áfellisdómum á línuna.

Unknown said...

Gott að þú ert nörd Árni minn. Heima hjá mér var sama tilhlökkun og undirbúingur með makrónuávaxtalíkjörsrjóma fyrir framan þessa margverðlaunuðu frönsku mynd. Framan af gekk bara vel að hugsa sem svo að auðvitað væri óhjákvæmilegt að frönsk mynd með sjálfsvirðinguna í lagi tæki sjálfa sig afskaplega hátíðlega með þreytandi óræðni (lesist wonnabíartí) - svo kom svartholið og ég vonaði að "listfengna" kafla myndarinnar væri nú fullnægt og seinni helmingurinn mundi standa undir öllum verðlaununum. Ég þráaðist við áhorfið með því að búa mér til verkefnið: hvað skil ég mikið í frönsku?
Síðan hef ég sagt öllum sem heyra vildu að þessi mynd væri hundleiðinlegt helv...
Nú þarf ég að horfa á þetta allt aftur og 25 mín. í viðbót - og kannski éta orð mín aftur...og...og...
Ég er greinilega jafnæst og þú sýnist ;)