Tuesday, July 10, 2007

Síðbúið póstkort

Hæ!

Þá er ég mættur aftur eftir útlönd og Eyjafjörð. Montpellier fannst mér flott. Gamlar, þröngar götur finnast mér einkar sjarmerandi. Það var einstaklega gaman að ráfa þessar götur og finna falleg hús, forvitnilegar búðir og framandi veitingahús. Og hundaskíturinn, sem Siggalára hafði hótað að yrði við hvert fótmál, var fáséður. Það var sumsé skoðað, verslað og borðað. Ekki vissi maður alltaf hvað maður var að panta á veitingahúsum, t.d. ákvað ég að vera grand á því og panta mér nautasteik, en fékk í staðinn hrúgu af hráu nautahakki. Nammi innan gæsalappa. Annars fórum við tvisvar á ströndina (ég er enn að flagna) og einn daginn fórum við til Avignon. Veðrið var oftast stuttbuxna og aldrei rigndi að neinu ráði. Krakkarnir stóðu sig líka með stakri prýði og það var ekkert mál að ferðast með alla fjölskylduna. Næst ætlum við Siggalára samt að fara bara tvö, svo hægt sé að sitja lengur að sumbli og fara í leikhús, óperuhús og þess háttar.

Hlökkum til að sjá ykkur,
Árni og fjölskylda