Monday, April 30, 2007

Sumar (hallæristitill)

Geisp. Klukkan margt. En konan ætlar að leyfa mér að sofa út á morgun, svo það er allt í lagi.

Ég hef ekkert að segja.

Ég vona að Liverpool vinni á morgun, stórt.

Ég held að Gunna Ö sé ekki lygari. Og ekki Jónína. Ég held að nefndin hafi bara ætlað að vera góð. Óheppni bara.

Ég skil samt alveg fúlu 'loksins loksins Íslendingana'.

Týpískur ég, að halda með báðum.

En ég held þó allavega ekki með Chelsea! Brenni þeir í víti! (Syngist við "Brennið þið, vitar")

Monday, April 23, 2007

Hefurðu aldrei nennt að lesa Laxness?

"Heldurðu kannski að hann sé hátíðlegur og leiðinlegur? Að það sé eitthvert skringilegt mál á þessum óendanlega mörgu bókum hans og stafsetningin tóm vitleysa?"

Góðu fréttirnar eru að þú getur sleppt því að lesa hann, aulinn þinn! Og þarft ekki að borga krónu!

Thursday, April 19, 2007

Gleðilegt sumar!!!

Kæru vinir!

Fór á Epli og eikur(eftir hina bráðskemmtilegu Tótu) síðasta vetrardag og hló mikið.

Fór í framhaldi af því í heimahús og drakk bjór, kaffi, rauðvin og borðaði ógrynni af poppi og súkkulaðiánamöðkum langt fram á sumar. Það var líka gaman.

Og nú er það enn ein fermingin á Akureyri.

Þakka öllum fyrir veturinn!

Gleðilegt sumar,
Árni

Sunday, April 15, 2007

Bíó, bíó, leikhús og ópera!

Tengdamamma kom um helgina, aðallega í þeim tilgangi að passa, svo ekki gat ég setið heima og horft á sjónvarpið. Byrjaði á að sjá 300 í bíó. Hafði bara nokkuð gaman af. Er skítsama um sögufölsunina sem margir einblína á, ég sé ekki fyrir mér að þessi mynd verði einhvern tímann notuð í sögukennslu í framhaldsskóla. Daginn eftir fór ég svo með Róberti að sjá TNMT eða TMNT, man ekki alveg. Það var mynd um ninjaskjaldbökubræður og pabba þeirra, sem var einhvers lags rotta. Hún var nú bara alveg ágæt líka (myndin og rottan). Svo fór ég með frúnni að sjá leikritið Bingó eftir Hrefnu, "systur" mína. Það var gaman. Feikna skemmtilegir leikararar og leikstjóri þar á ferð. Svo fór ég í óperuna í gær og sá Cavelleria Rusticana eftir Mascagni. Það var drullugott. Elín Ósk fór sérdeilis á kostum. Virkilega flott uppsetning, það eina sem pirraði mig var hvað einsöngvararnir voru allir vel klæddir.

Svo ætla ég loksins að drífa mig á Epli og Eikur á miðvikudaginn. Og kannski jafnvel á Lífið - notkunarreglur næstu helgi og svo Hugleik í kjallaranum í næstu viku og svo Hjónabandsglæpi og Cymbeline í Þjóðleikhúsinu og... hvar endar þetta eiginlega? Ég ætti kannski að semja við tengdamömmu að vera lengur?

Thursday, April 12, 2007

Ég er klaufi

Konan nýbúin að elda sér hádegismat þegar ég skelli innkaupapokanum upp á eldavélina og byrja að tína úr honum inn í ísskáp. Skyndilega finn ég einkennilega lykt og segi "sjitt" á innsoginu og ríf pokann af eldavélinni, en botninn varð eftir suður á Hellu og restin af matvörunum hrynur á gólfið, nema mjólkurkexið. Eins gott að Gyða er ekki orðin nógu gömul til að spyrja: "Pabbi, af hverju er kexið mitt svart og skrýtið á bragðið?"

Já, kexið frá Fróni kemur við sögu á hverjum degi.

Tuesday, April 10, 2007

Ég er kominn aftur...

...eftir langt og gott páskafrí. Tók mér frí frá þýðingum og öllu(gaulaði smá reyndar) og fór bæði til Akureyrar og Egilsstaða. Fékk fínan saltfisk á Hótel KEA, sá Sverri bróður slá í gegn sem prímadonna í Prímadonnunum, fór á söngtónleika á Eskifirði, borðaði, svaf, spilaði PES, horfði á fínt sjónvarp (Motorcycle Diaries og Gasolin) og fitnaði þónokkuð. Og í tilefni af því ætla ég að fá mér pítsu.