Friday, March 23, 2007

Nú er ég að hugsa um að hætta að nota 'ég' í fyrirsögninni... doh

Það er föstudagskvöld. Konan að frumsýningarpartíjast. Sonurinn að ömmu og afast. Dóttirin að sofa. Ég prófarkast, drekk te og velti fyrir mér hvað Hugo Wolf lieder ég eigi að glíma við næst. Fór á bókasafnið og í kvöld og fékk mér nokkrar bækur. Þar á meðal frábærlega innihaldsríka bók um sönglög Wolfs. "The Songs of Hugo Wolf" eftir Eric Sams, þar sem hann Eric greinir hvert einasta lag. Þvílík snilld! Ég held mig við Mörike-kaflann, þar sem ég er búinn að læra 2 lög (Fussreise og Auf ein altes Bild) og á ekki nema 51 eftir! Er svolítið spenntur fyrir 'Der Knabe und das Immlein' og 'Ein Stundlein whol vor Tag', en hugsa samt að ég byrji kannski á 'Verborgenheit', þar sem ég þekki það ágætlega fyrir.

Og sjónvarpið hefur fengið að vera slökkt í kvöld, nema ég horfði á hrikalega spennandi 'Gettu betur'-þátt. Einhverra hluta vegna hélt ég með MK, þannig að þetta var hið besta mál. Hörkuskemmtilegur þáttur og annað hvort er ég orðinn heilmikið klárari með aldrinum, eða Davíð Þór er einfaldlega með léttari spurningar en voru í denn. Ég ætla að leyfa mér að halda mig við fyrri skýringuna.

Já, þetta föstudagskvöld er bara helv. magnað!

No comments: