Monday, May 21, 2007

Skjaldarmerkismaðurinn. Nýr og spennandi sjónvarpsþáttur!

Í kvöld sá ég mann stinga krókum í bakið á skjaldarmerkismanninum og hífa skrokkinn á honum upp og láta hann dingla neðan í klettavegg, á meðan skjaldarmerkismaðurinn yfirgaf skrokkinn og sveimaði um lendur sem vonandi fæstir þekkja.

"Heroes" hvað?!

Sunday, May 20, 2007

Simlir og félagar, vinsælir alls staðar

Jæja, nú held ég að sé kominn tími til að rísa úr rekkju. Hef nú eiginlega verið veikur í hálfan mánuð. Söng til dæmis á tónleikum á miðvikudagskvöldið með 38,3 stiga hita. Held þetta sé í fyrsta skipti sem ég syng á tónleikum og hugsa í miðju lagi: "Hvað í fjandanum er ég að gera hérna?" Þetta var svolítið spes, en slapp samt allt fyrir horn.

Á fimmtudagskvöldið fór ég síðan með Shakespeare hópnum mínum í Þjóðleikhúsið/Listahátið og sá gestasýninguna Cymbeline og það var M A G N A Ð. Ég hafði nýlokið við að lesa leikritið og djöfull var þetta gaman og margt sniðugt og allt skemmtilegt og... s. frv.

Svo er margt á dagskránni. Húsfundur á þriðjudagskvöldið, stórleikur á miðvikdagskvöldið og stuttmynd eftir Sverri bróður frumsýnd í Tjarnarbíó á fimmtudagskvöldið, og Brekka, Eyjafjarðarsveit, föstudag til mánudag. Já, nú nenni ég ekki að vera veikur lengur.

Friday, May 11, 2007

Að skríða meira saman

Á morgun ætla ég að halda áfram með viskíið mitt og horfa á Júróvísjón, án Eika frænda. Hann stóð sig nú samt bara vel. Ég er reyndar farinn að hallast að því að konan mín hafi rétt fyrir sér að það sé ekkert Austur Evrópu-samsæri í gangi. Allavega fór ég yfir einkunnirnar mínar og sá að þetta voru hin ágætustu lög sem komust áfram, Hvíta Rússland og Serbía voru reyndar hörmung, en hin lögin voru með þeim betri í keppninni. Ég var þó hissa á að Kýpur kæmist ekki áfram, það fannst mér bæði júróvísjónlegt og fínt. Þau lög sem mér fannst best komust áfram og þar sem ég hef ekki heyrt lögin sem komin eru í úrslit (nema Úkraínu, sem er ömurlegt) held ég með Ungverjalandi og Makedóníu.

Heyrið annars! Ef röddin mín og heilsa lofar syng ég ein fjögur lög á ljóðadeildartónleikum í skólanum mínum á miðvikudagskvöldið. Það er að sjálfsögðu öllum sem áhuga hafa velkomið að kíkja við, því nú hyggst ég leggja söngnámið á hilluna og halda sem mest kjafti og því ekki seinna vænna að heyra í mér. Ég auglýsi þetta betur er nær dregur.

Nú ætla ég aftur á móti að þýða og drekka viskí.

Að skríða saman

Já, það getur verið gaman að skríða saman. Sérstaklega þegar maður er búinn að vera lasinn. Nú held ég að ég sé allur að koma til. Allavega fór ég í Vínbúðina í dag og keypti mér litla flösku (ekki pela) af Frægu skógarhænsni og ætla henni að hjálpa mér yfir síðasta þröskuldinn í átt að heilsu og fullkominni hamingju. Já, þetta er búinn að vera hálf ömurleg pesti. Ég missti t.d. af Erlu Dóru Vogler syngja á tónleikum sínum síðasta sunnudag og missti af Vox Academica flytja þýsku sálumessuna eftir Brahms og það sem verra var, ég missti af öllu golfinu sem ég ætlaði að spila síðustu helgi. Í kvöld fór ég á burtfarartónleika með Dagrúnu Ísabellu, sem er nemandi úr Söngskóla Sigurðar Demetz og voru þeir hreint prýðilegir. Drullufín rödd og assgoti góð leikkona líka, þannig að hún á framtíðina fyrir sér.

Tuesday, May 8, 2007

Æi, þetta er þarna kallinn hennar Sigguláru

Já, nú er konan orðin svo fræg að ég sé fram á að hér eftir (sem áður) verði ég einungis þekktur sem maðurinn hennar Sigguláru. Og það er nú svo sem alls ekkert leiðinlegt. Eiginlega bara gaman. Eiginlega bara ekkert eiginlega með það. Já, ég sagði henni nú allan tímann að leikritið hennar "Listin að lifa" yrði fyrir valinu sem áhugaleiksýning ársins, en hún tók það nú aldrei sérlega alvarlega. Verst að það fer að verða erfiðara fyrir mig að Ortona hana úr þessu(ekki víst að allir skilji hvað sögnin "að Ortona" þýðir, en það er nú bara skemmtilegt að giska þá).

Svo er ég enn veikur. Algjör aumingi. Já, hann er nú meiri auminginn, þarna, kallinn hennar Sigguláru.

Sunday, May 6, 2007

Hor

Enn að snýta mér...

Saturday, May 5, 2007

Veikur

Úff, ekki ætlar þessi helgi að verða jafnmikil menningar-, golf,- og drykkjuhelgi og vonast var til. Ég er kominn með hálsbólgu og hita og finn að kvefið er koma á fullri ferð. Ég sem hafði hugsað mér á eina til tvo tónleika og liggja svo í golfi á Þorlákshöfn. Þetta ætlaði ég að gera þar sem við Róbert erum einir heima um helgina. En nei, í staðinn er ég hundlasinn og þýðandi og prófarkalesandi.

Ég náði þó að fara með Róberti í bíó í gær og í fyrrakvöld fór ég á vortónleika Kvennakórs Reykjavíkur. Sá kór er á leiðinni út í kórakeppni og býst ég við að þeim eigi eftir að ganga með ágætum vel. Allavega hljómaði kórinn virkilega fallega. Gunnar Guðbjörnsson fannst mér reyndar óþarflega áberandi á þessum tónleikum, ég skildi í raun ekki af hverju hann var látinn syngja 5 einsöngslög á kórtónleikum. En ég hef svo sem ekki verið allt of duglegur að fara á kórtónleika, svo kannski er þetta algengt. Það breytir því ekki að þetta voru þrusufínir tónleikar og ég óska Kvennakórnum alls hins besta í útlandinu.

Og nú þarf ég að snýta mér.