Friday, November 30, 2007

Hátíðarlituð tónleikaröð

Það er aldeilis búið að vera mikið að gera hjá mér síðan síðast. Síðustu vikuna er ég búinn að fara á þrjá tónleika, tvö bekkjarkvöld, eitt bíó og svo er ég náttúrulega búinn að vera vinna eins og þræll. Og svo er konan mín bara ólétt heima og Gyða litla gubbandi.

Já, fyrir viku fór ég að sjá Jón Þorsteinsson og Hörð Áskelsson í Neskirkju. Það voru gullfallegir tónleikar, svo manni vöknaði um augu. Jón söng upp sálma af nýjum diski og nokkur verk eftir Bach. Ríkharður Örn mætti á sömu tónleika og ég og fór út í fýlu sýnist mér á dómnum hans í Mogganum. Allt vegna þess að ekki var ritað tónleikaprógramm. Og hvað? Átti það að hjálpa honum að vita númer hvað sálmurinn er í sálmabókinni?

Á laugardagskvöldið fór ég svo að sjá Beowolf með Róberti. VÁÁ! Þvílík upplifun! 3D snilld! Drífa sig að sjá hana í bíó. Það er örugglega ekkert varið í hana annars staðar. Þetta er sko alvöru ævintýri.

Á þriðjudagskvöldið var svo bekkjarkvöld hjá bekknum mínum í Hagaskóla. Tókst súpervel! Ég var mjög stoltur af "börnunum" mínum.

Svo fór ég á bekkjarkvöld hjá Róberti á fimmtudagskvöldið og þaðan fórum við Róbert að sjá aðventutónleika Kvennakórs Reykjavíkur. Amma hans Róberts var náttúrulega best og maður komst bara í ljómandi jólaskap.

Svo fór ég nú í kvöld á jólatónleika Vox Academica og það var nú barasta snilld. Þessi verk voru bara frábær. Gloria eftir Poulenc og jólakantata eftir Honnegger. Sinfóníuhljómsveit og flottur kór, einsöngvarar og lang lang flottasta Heims um ból sem ég hef heyrt, eða mun heyra.

Svo er jólahlaðborð með Hagaskóla á Þingvöllum annað kvöld. Best að fá sér einn bjór til að hita upp.


Thursday, November 22, 2007

Fimmtudagar eru sjónvarpsdagar.

Brothers & Sisters: Nákvæmlega eins og Dallas, en ágætis afþreying. 


House: Sá reyndar bara seinni helminginn og sennilega var þetta versti þátturinn frá byrjun, en Hugh Laurie er magnaður leikari.


The Sopranos: Miklir snilldarþættir. Og greinilega að klárast fyrst það er farið að drepa lykilpersónur. HBO eru algjörir snillingar þegar kemur að vel skrifuðu sjónvarpsefni. Sopranos, Six feet under og Deadwood(já og jafnvel sex and the city). Hvernig er þetta hægt? Six Feet búið, Deadwood búið(á reyndar eftir að sjá slatta), Sopranos næstum búið. Soldið sorglegt.


Yfirleitt horfi ég líka á 07/08, en missti af því núna. Þannig að ekki heimsækja mig á fimmtudagskvöldum :)

Wednesday, November 21, 2007

Þar með er það ákveðið!

Ef ég næ 101 árs aldri ætla ég að sitja fyrir nakinn, fyrir Liverpool.

Liverpool vegna vona ég að ég verði löngu dauður.

Tuesday, November 20, 2007

Bronsið í Hagaskóla!

Hagaskóli var í þriðja sæti Skrekks og má vera stoltur. Enda hæfileikaríkir og djúpt þenkjandi krakkar þarna á ferð. Krakkarnir upphugsuðu þetta atriði alveg á eigin spýtur, án hjálpar fullorðinna og það er með ólíkindum hvað sýningin var vel útfærð og flott. Greinilega vel haldið um taumana. Ég segi bara bravó og húrra fyrir Hagaskóla! Ég er stoltur!

Og nú bíður maður sko aldeilis spenntur eftir Bugsy Malone í leikstjórn Siggu Birnu. Forsmekkurinn segir að það verði magnað.

Monday, November 19, 2007

Weetos - Sykurminnsta súkkulaðimorgunkornið sem völ er á!

Fyrirgefið þetta stutta blogg - ég bara VERÐ að drífa mig út í búð.

Sunday, November 18, 2007

Horft í vestur

Í kvöld horfði ég á aldeilis frábæra mynd, ástralska vestrann "The Proposition". Leikstýrt af 'ég man ekki hverjum' en handritið er eftir Nick Cave. Þessi mynd er falleg/ljót og hæg/spennandi. Hún er full af ofbeldi/á móti ofbeldi. Söguþráðurinn er næstum eins einfaldur og hægt er, en hún nær að vera ljóðræn og innihaldsrík. Og endirinn er ekkert annað en fullkominn. Leikurinn er líka frábær. Ray Winstone sérstaklega. Og Guy Pearce. Hinir ekkert slor. Þetta er mynd sem allir þurfa að sjá, nema yngri en 16 ára, viðkvæmir og ábyggilega flestar konur. Já, vestrinn er greinilega ekki útdauður. Deadwood-þættirnir eru mikil snilld og ég hlakka til að sjá bæði "3:10 to Yuma" og "Jesse James."

Saturday, November 17, 2007

Kominn aftur.

Vonandi til að vera í þetta skiptið. Já, sumarið setti bloggið á hóld og svo byrjaði ég að vinna eðlilega vinnu í haust, eftir margra ára tjill og fyrir vikið hafa hellst yfir mig flensur af ýmsum stærðum og gerðum. Ég er nefnilega nákvæmlega eins og börn sem eru að byrja á leikskóla. Hef verið allt of lengi í sóttkví. Já, nú er ég byrjaður að kenna 8. bekk Hagaskóla, ekki bara ensku, heldur líka sögu, landafræði, lífsleikni og íslensku. Já, þetta er náttlega helvíti töff, en líka bara geðveikt kúl og skemmtilegt. Á degi íslenskrar tungu lék ég minn þátt úr sagnadagskrá Hugleiks fyrir umsjónarnemendur mína, sem síðan hófu að segja draugasögur í framhaldi af því, þannig að það var sko haldið upp á afmæli Jónsa með stæl! Reyndar las ég líka fyrir þau kafla úr "Fáfræðinni" eftir Milan Kundera um flutninginn á beinum Jónasar. Alveg stórkostlegur kafli úr massafínni bók. En ég er ekki eins viss um að nemendur hafi skilið hann eða haft yfirleitt einhverja ánægju af honum.

Jæja, That's it for now.

P.S. Kæru nemendur, ef þið slysist inn á þetta blogg, þá er þetta heimaverkefni handa ykkur. Gjöra svo vel að snara þessum texta yfir á íslensku. :)