Tuesday, February 24, 2009

Á Sprengidegi (étum, étum, étum okkur sadda...)

Nú er ég mettur. Var að koma úr mánaðarlegum hádegissaumaklúbbi nokkurra gamalla MA-skólafélaga og snæddi þar til dæmis sardínur og hráar eggjarauðu. Í kvöld er það svo saltkjötið góða og baunirnar og í gær voru það bollur, svo að ekki léttist ég mikið í þessari viku.

En ég lofaði mér víst að punkta reglulega niður einhverju um menninguna sem ég upplifi.

Síðan um jólin hef ég lesið 3 bækur:

Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Ég er hrifinn af smásögum Guðrúnar Evu. Litlar og laufléttar myndir úr samtímanum. Skaparinn er fyrsta skáldsaga hennar sem ég les og er bæði metnaðarfull og áhugaverð. Til að byrja með fannst mér ég vera að lesa Braga Ólafsson, þar sem undar legar aðstæður persónanna minntu mig á Gæludýrin og Sendiherrann. Ég las þessa bók af þónokkurri ánægju. Oft á tíðum komu upp skemmtilegar hugleiðingar og persónur voru áhugaverðar, en ég get ekki sagt að ég hafi fyllilega skilið þessa bók. Ég er ekki viss um að ég geti útskýrt um hvað hún er, mér fannst eitthvað vanta. Engu að síður langar mig að lesa meira eftir Guðrúnu Evu. Yosoy bíður betri tíma.

Rökkurbýsnir eftir Sjón.

"Rökkurbýsnir eru yndi til lestrar, aðgengilegar öllum lesendum, frásögnin spennandi og alþýðleg, ekkert nema rasssæri rekur mann á fætur. Góða skemmtun!" Sigurður Hróarsson, Fréttablaðið

Leyfið mér að umorða. "Rökkurbýsnir eru ekki yndi til lestrar, alls ekki aðgengilegar öllum lesendum, frásögnin óspennandi og alþýðleg, ekkert nema rasssæri kemur í veg fyrir að maður sofni. Góða nótt!" Árni Friðriksson, Músin segir mjá mjá.

Lesið frekar Íslandsklukkuna.

Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur.

Líka fyrsta bók sem ég les eftir Auði, sem er skammarlegt, þar sem hún var í MA um leið og ég. Vetrarsól er sennilega ein auðlesnasta bók í heimi þegar maður les hana strax á eftir Rökkurbýsnum. Hún er skemmtileg, spennandi og vel skrifuð. Það er til dæmis mjög lipurlega flakkað aftur í tímann. Plottið gengur líka alveg upp, en tónn bókarinnar breytist nokkuð í lok bókarinnar þegar kemur að uppgjöri og verður myrkari. Þessi myrki tónn sló mig svolítið út af laginu. En skemmtileg bók. Fólkið í kjallaranum bíður betri tíma.


Væntanlegt í menningarhorninu: Bækur: Bókaþjófurinn, Leikhús: Rústað

No comments: