Sunday, January 25, 2009

Lokasýningarrotta

Ég virðist vera kominn með lokasýningarkækinn. Hann lýsir sér þannig að einu sinni í mánuði klárast sýningar á einhverju sem mig langar að sjá og þá kippist ég óþyrmilega á síðustu sýninguna. Ég er reyndar mjög feginn þessum kæk, þar sem áður en hann kom upp var ég gjarnari á að missa af þessum sýningum, sem mér þótti oft miður. En að þessum sökum sá ég Makbeð í nóvember, Vestrið eina í desember og nú í kvöld sá ég Steinar í djúpinu.

Ókosturinn við að vera með þennan kæk, eru þeir að það þjónar litlum tilgangi að mæla með þessu sýningum við fólk. En ég get með góðri samvisku og af töluverðum kvikindisskap (við þá sem ekki sáu) mælt með þeim öllum.

Makbeð: Blóð, blóð, blóð, hasar og hrööööð atburðarrás þar sem Makbeð og lafðin stóðu ekki bara á bak við morðin, þau sáu um það algjörlega sjálf. Morðingi 1 og 2 úti í kuldanum. Mónólógar hvergi sjáanlegir í sennilega undirlegustu, en þeirri langeftirminnilegustu Makbeðsýningu sem ég hef séð.

Vestrið eina: Blót, blót, blót, hasar og stórhættuleg sýning þar sem gat allt eins átt von á að fá kartöflu í hausinn. Frábær leikur og fyndnara en andskotinn. Sé svakalega eftir að hafa ekki séð neitt annað eftir höfundinn. Sko, þessi kækur kemur allt of seint.

Steinar í djúpinu: Vá! Kom mér verulega á óvart. Var pínu skeptískur, verkið byggt á texta eftir ljóðskáld og þess háttar og ég átti von á einhverjum óræðum, ljóðrænum svipmyndum. Vá, hvað þú ert sjalló, Árni. Verulega heilsteypt verk sem varð manni á köflum hrein upplifun. Leikmynd góð, lýsing frábær og tónlistin meiriháttar. Og ég á bara ekki orð yfir textanum. :) Ólafur Darri, Harpa Arnardóttir og Árni Pétur að öðrum ólöstuðum frábær.

Svo er bara að sjá hvaða sýningu er að ljúka í febrúar.

No comments: