Friday, June 1, 2007

Á að útrýma unglingum?

Jæja, eins gott að nota sumarið vel. 15. ágúst fer ég að kenna og verð víst að hætta að leika mér. Ég er að fara að kenna 8. bekk Hagaskóla íslensku, ensku og samfélagsfræði. Hluti af mér er nokkuð stressaður yfir þessu, þar sem ég hef kennt áður og veit að þetta er heilmikið álag og púl. Hinn hlutinn hlakkar bara til. Alltaf gott að breyta til reglulega. Þýðingar eru afskaplega þægileg vinna og krefjast ekki mikils af manni, og það er kannski akkúrat þess vegna sem kominn er tími til að gá hvort ég geti ekki gert unga fólki Íslands meira gagn en setja íslenskan texta við Beavis og Butthead.

Ég er allavega spenntur að kynnast íslenskum unglingum, ég verð að viðurkenna að mér finnst ég ekki þekkja þá vel. "Unglingar" eru gjarnan (oft með hjálp fjölmiðla) settir undir ósanngjarnan hatt. Nú á Róbert ekki langt í að geta kallast unglingur og það eru ekki mörg ár síðan að hann þorði varla út úr húsi vegna þess að hann hafði séð "unglinga" úti. Einhvers staðar fór þetta ágæta orð "unglingar" að hafa neikvæða merkingu. Hversu oft heyrir maður ekki (eða notar jafnvel sjálfur) "Þetta eru nú bara unglingar", "Ætli þetta hafi ekki verið unglingar", "Vertu ekki með þessa unglingastæla!" Ég held að unglingar í dag séu eins og allt annað fólk, þ.e.a.s. eins mismunandi og fólk er margt. Spurning hvort við ættum ekki bara að útrýma "unglingum" úr íslensku máli. Ég er allavega að hugsa um að kenna bara 13 og 14 ára krökkum næsta vetur.

2 comments:

Magnús said...

Ég ætla rétt að biðja þig að gera ekki lítið úr því starfi að þýða Beavis og Butt-Head. Heh. Hehe.

Unknown said...

13-14 ára krökkum sem eiga það flest ef ekki öll sameiginlegt að vera í stöðugu hormónarússi að ganga í gegnum erfiðasta breytingaskeið ævinnar.

Ef ég man rétt er Róbert þinn jafngamall Axel mínum - og hann er sko byrjaður. Þetta kemur yfirleitt miklu fyrr en maður heldur - og löngu áður en maður er tilbúinn! ;o)